Samgöngustofa hefur gefið út fréttatilkynningu vegna tilmæla Dómsmálaráðuneytisins til Ríkislögreglustjóra um eftirlit með atvinnubílstjórum.
Fréttatilkynning Samgöngustofu er svohljóðandi:
Ökuréttindi atvinnubílstjóra án endurmenntunar verða ekki afturkölluð
Samkvæmt tilmælum frá dómsmálaráðuneytinu munu lögregluembætti ekki afturkalla gild skírteini gefin út fyrir 10. september 2018 með ökuréttindum fyrir bílstjóra til aksturs ökutækja í flokkum C, C1, D1 og D í atvinnuskyni, sem ekki hafa lokið lögbundinni endurmenntun. Meginástæða er sú að ekki er að finna viðhlítandi refsiheimild í umferðarlögum sem leggur bann við akstri bílstjóra með gild ökuskírteini í atvinnuskyni án endurmenntunar. Krafa um endurmenntun lúti aðeins að skilyrðum fyrir útgáfu ökuréttinda.
Öllum sem stjórna ökutækjum í þessum flokkum í atvinnuskyni er áfram skylt að sækja sér endurmenntun. Framvegis verða ökuskírteini með atvinnuréttindum eingöngu gefin út til einstaklinga sem lokið hafa lögbundinni endurmenntun. Skírteini fyrir umrædda flokka til aksturs í atvinnuskyni eru gefin út til fimm ára.
Réttindin eru gefin til kynna með tákntölunni 95 og er lok gildistíma sett í sviga aftan við tákntöluna. Talan gildir í öllum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og veitir bílstjóra aðgang að atvinnumarkaði bílstjóra í þessum ríkjum.